Fréttir

Draumurinn úti hjá íslensku strákunum
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 18. nóvember 2019 kl. 14:16

Draumurinn úti hjá íslensku strákunum

Fjórði hringurinn á lokastigi úrtökumóts fyrir Evrópumótaröð karla var leikinn í dag. Fyrir íslensku keppendurna, þá Andra Þór Björnsson, Bjarka Pétursson og Guðmund Ágúst Kristjánsson, var þetta jafnframt lokahringurinn þar sem enginn þeirra komst í gegnum niðurskurðinn sem miðaðist við -4 högg. 

Guðmundur Ágúst var í vænlegustu stöðunni fyrir hringinn í dag á samtals einu höggi undir pari. Hann byrjaði vel í dag og fékk tvo fugla strax á fyrstu tveimur holunum. Eftir að hafa fengið einn þrefaldan skolla og tvo skolla á holum 5-7 var hins vegar á brattann að sækja. Þrátt fyrir góða baráttu á seinni 9 holunum sem Guðmundur lék á tveimur höggum undir pari tókst honum ekki að hífa sig aftur upp listann og kom í hús á 72 höggum eða einu höggi yfir pari.

Bjarki var fyrir daginn á samtals tveimur höggum yfir pari og þurfti því á mjög góðum hring að halda til þess að komast í gegnum niðurskurðinn. Það tókst ekki og lék Bjarki hringinn í dag á einu höggi yfir pari. Bjarki hóf leik á 10. holu í dag og á fyrri 9 holunum fékk hann þrjá fugla, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla og lék þær því á höggi yfir pari. Á seinni 9 holunum fékk hann svo tvo fugla og tvo skolla til viðbótar og 72 högg því niðurstaðan. Bjarki lýkur því leik á samtals þremur höggum yfir pari.

Andri Þór var líkt og Bjarki á tveimur höggum yfir pari fyrir daginn. Hann náði aldrei flugi í dag en lék hringinn á fimm höggum yfir pari. Fyrri 9 holurnar (10-18) reyndust Andra mjög erfiðar en hann lék þær á fimm höggum yfir pari þar sem hann fékk einn fugl, tvo skolla og tvo tvöfalda skolla. Seinni 9 holurnar lék hann svo á parinu þar sem hann fékk einn fugl og einn skolla.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.