Fréttir

Evrópumótaröð karla: Fyrsti sigur Fleetwood í tæp tvö ár
Tommy Fleetwood.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 17. nóvember 2019 kl. 21:46

Evrópumótaröð karla: Fyrsti sigur Fleetwood í tæp tvö ár

Lokadagur Nedbank Golf Challenge mótsins á Evrópumótaröð karla fór fram í dag í Suður-Afríku. Mikil spenna var á lokadeginum og þurftu þeir Tommy Fleetwood og Marcus Kinhult að leika bráðabana um sigurinn. Svo fór að lokum að Fleetwood hafði betur. 

Fleetwood byrjaði daginn sex höggum á eftir efsta manni. Hann lék aftur á móti frábært golf á lokadeginum þar sem hann fékk þrjá erni, fjóra fugla, þrjá skolla og restina pör. Hringinn endaði hann því á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari, og móti samtals á 12 höggum undir pari.

Marcus Kinhult lék á 68 höggum í dag og endaði mótið líka á 12 höggum undir pari.

Á fyrstu holu bráðabanans var 18. holan leikin og fékk Fleetwood par á meðan Kinhult fékk skolla. Þetta var fyrsti sigur Fleetwood í tæplega tvö ár sen síðasta fagnaði hann sigri á Abu Dhabi HSBC Championship mótinu í janúar árið 2018.

Fyrir daginn var Zander Lombard í efsta sætinu á 11 höggum undir pari og höggi á eftir honum voru þeir Thomas Detry og Louis Oosthuizen. Allir léku þeir yfir pari í dag og voru því ekki í baráttunni um sigurinn undir lokin.

Hér að neðan má sjá ernina þrjá hjá Fleetwood og hér má sjá lokastöðuna í mótinu.