Fréttir

Frábær byrjun hjá Bjarka á EM áhugamanna
Bjarki Pétursson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2019 kl. 13:00

Frábær byrjun hjá Bjarka á EM áhugamanna

Bjarki Pétursson, GKB, fór af stað með látum á EM einstaklinga sem hófst í dag á Diamond Country vellinum í Austurríki. Bjarki lék fyrsta hringinn á 4 höggum undir pari og er jafn í 7. sæti þegar flestir kylfingar eru farnir af stað á fyrsta keppnisdegi.

Bjarki hóf leik á 10. teig og hafði nokkuð hægt um sig fyrstu holurnar. Á 7. holu dagsins fékk hann sinn fyrsta fugl og við tók frábær kafli þar sem hann bætti við sig fjórum fuglum til viðbótar og var kominn 5 högg undir par eftir 13 holur. Eina tapaða högg dagsins kom á hinni 376 metra löngu par 4 holu, 7. holu.

Eftir þennan flotta hring er Bjarki jafn í 7. sæti, einungis tveimur höggum á eftir Blake Windred og Daniel Hillier sem leiða.

Alls eru leiknir fjórir hringir í mótinu sem lýkur á laugardaginn.

Auk Bjarka er Gísli Sveinbergsson, GK, meðal keppenda á EM einstaklinga. Gísli hóf leik klukkan 12:20 að íslenskum tíma og verður greint frá skori hans þegar hann klárar fyrsta hringinn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.