Fréttir

Guðrún á meðal efstu kvenna eftir frábæran hring
Guðrún Brá Björgvinsdóttir á 2. degi lokaúrtökumótsins á Spáni. Mynd/LET.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 23. janúar 2020 kl. 12:50

Guðrún á meðal efstu kvenna eftir frábæran hring

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK lék frábært golf á öðrum degi á lokastigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröð kvenna sem fram fer á La Manga á Spáni. Leikið er á tveimur völlum, Suður- og Norður-vellinum, og lék Guðrún á Suður-vellinum í dag. Eftir daginn er Guðrún á meðal efstu kvenna og því í frábærum málum.

Hringurinn hjá Guðrúnu einkenndist af miklum stöðugleika. Hún hóf leik á 10. holu í dag og fékk tvo fugla og restina pör á fyrstu níu holunum en báðir fuglarnir komu á par 3 holu. Á síðari níu holunum hélt hún áfram að leika sama stöðuga golfið og bætti við tveimur fuglum. Hún kom því í hús á 69 höggum, eða fjórum höggum undir pari.

Eftir tvo hringi er Guðrún á samtals tveimur höggum undir pari og jöfn í fjórða sæti eins og staðan er núna. Enn eiga nokkrar eftir að ljúka leik í dag og getur því staðan breyst lítillega.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Leiknir verða fimm hringir og eru niðurskurður eftir fjóra. Af 120 kylfingum sem hófu leik eru 60 sem komst áfram eftir fjóra hringi. Efstu fimm konurnar að loknum fimm hringjum fá þátttökurétt sem kallast 5c á Evrópumótaröð kvenna. Kylfingar sem enda svo í sætum 6-20 fá þátttökurétt sem kallast 8a. Kylfingar sem enda síðan í sætum 21-60 fá þátttökurétt 9b. Að lokum fá kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn þátttökurétt 12a.