Fréttir

Harrington velur Karlsson sem varafyrirliða í Ryder bikarnum
Robert Karlsson og Padraig Harrington. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 18. september 2019 kl. 19:59

Harrington velur Karlsson sem varafyrirliða í Ryder bikarnum

Írinn Padraig Harrington var í byrjun árs kynntur sem fyrirliði Evrópu í Ryder bikarnum sem fer næst fram árið 2020 á Whistling Straits vellinum í Bandaríkjunum.

Hinn 47 ára gamli Harrington er þriðji Írinn til að stýra liði Evrópu en áður höfðu þeir Paul McGinley (2014) og Darren Clarke (2016) fengið þann heiður.

Í dag tilkynnti Harrington sinn fyrsta varafyrirliða í mótinu sem er Svíinn Robert Karlsson.

Hinn 50 ára gamli Karlsson spilaði tvisvar fyrir hönd Evrópu í Ryder bikarnum, árin 2006 og 2008, og lék einmitt í fjórmenning með Harrington í seinni keppninni.

Í fyrra var Karlsson einnig varafyrirliði þegar evrópska liðið hafði betur gegn því bandaríska á Le National vellinum í Frakklandi.

„Ég hef þekkt Robert í langan tíma og veit að hann mun koma með mikla reynslu í liðið,“ sagði Harrington. „Sem fyrrum Ryder spilari og besti kylfingur Evrópumótaraðarinnar er hann virtur af liðsmönnum og ég veit að ég get treyst á hann í undirbúningnum sem og í vikunni sjálfri.“