Fréttir

Heimslisti karla: Colsaerts upp um rúmlega 200 sæti
Nicolas Colsaerts.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 21. október 2019 kl. 14:04

Heimslisti karla: Colsaerts upp um rúmlega 200 sæti

Heimslisti karla hefur verið uppfærður eftir að mótum helgarinnar lauk í gær. Justin Thomas sem fagnaði sigri á CJ Cup mótinu á PGA mótaröðinni fer upp um eitt sæti og er hann nú kominn í fjórða sæti listans. Jon Rahm fer niður í fimmta sætið.

Brooks Koepka, sem þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla um helgina, er enn í efsta sætinu og hefur hann nú verið þar í samfleytt í 23 vikur. Samtals hefur hann verið í 32 vikur í efsta sætinu á sínum ferli sem og er hann nú orðinn jafn Vijay Singh í 11. sæti yfir þá kylfinga sem hafa setið lengst í efsta sætinu.

Hástökkvari vikunnar er án alls vafa Nicolas Colsaerts, sigurvegari Open de France mótins á Evrópumótaröðinni. Colsaerts hafði ekki unnið mót síðan í maí árið 2012 og var hann fyrir helgina í 424. sæti heimslistans. Eftir sigurinn í gær er Colsaerts aftur á móti kominn í 196. sæti listans.

Listann í heild sinni má nálgast hérna.