Fréttir

Hovland hlaut aðvörun í Abú Dabí
Viktor Hovland. Mynd: Getty Images.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 22. janúar 2020 kl. 22:59

Hovland hlaut aðvörun í Abú Dabí

Líkt og Kylfingur greindi frá á dögunum hefur Evrópumótaröð karla hert reglur mótaraðarinnar um leikhraða á golfvellinum.

Helsta breytingin fólst í því að kylfingar þurfa nú einungis að fara tvisvar yfir leyfðan tíma til að slá högg í heilu móti til að fá dæmt á sig víti. Hér áður fyrr þurftu kylfingar að brjóta regluna tvisvar á sama hring til að fá dæmt á sig víti en nú færist aðvörunin á milli hringja.

Alls lentu þrír kylfingar í því að fá aðvörun í Abu Dhabi HSBC meistaramótinu sem fór fram í síðustu viku en einn þeirra var Norðmaðurinn Viktor Hovland.

Hovland var 59 sekúndur að pútta á fjórðu holu mótsins og fékk aðvörun frá starfsmanni að hann hefði farið yfir leyfilegan tíma sem eru 40 sekúndur.

„Þetta kom mér aðeins úr jafnvægi,“ sagði Hovland sem er á meðal keppenda á Dubai Desert Classic mótinu sem hefst á fimmtudaginn.

„Það sem eftir lifði hrings eyddi ég of mikilli orku í að spila hratt í staðinn fyrir að spila vel. Ég lærði af þessu að fara út og treysta rútínunni minni.

Hugsunin var: „Hvenær byrja þeir að telja, telur þetta?“ Mig vantaði aðeins meiri reynslu en ég er búinn að ræða þetta við dómara og nú líður mér betur.“

Hovland fékk aldrei seinni áminninguna í Abú Dabí en hann varð að lokum höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn í mótinu.