Fréttir

McIlroy stefnir á Ólympíuleikana
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 23. október 2019 kl. 16:00

McIlroy stefnir á Ólympíuleikana

Norður-Írinn Rory McIlroy var einn fjölmargra sterka kylfinga sem ákváðu að taka ekki þátt á Ólympíuleikunum árið 2016 sem voru haldnir í Brasilíu. Það mun ekki endurtaka sig á næsta ári þegar Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó árið 2020.

„Ég er spenntur fyrir því að keppa á Ólympíuleikunum og að kalla mig sjálfan ólympíufara,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi fyrir Zozo Championship sem hefst í nótt í Japan.

„Að koma til svona mikillar golfþjóðar eins og Japan er hjálpar til við ákvörðunina. Það er mjög gott andrúmsloft hér og að vera hér þessa vikuna og sjá þennan brennandi áhuga fólks fær mig til að hlakka til að koma aftur á næsta ári og spila á Ólympíuleikunum.“

Þar sem McIlroy er frá Norður-Írlandi hefur hann val um að spila annað hvort fyrir Bretland eða Írland á Ólympíuleikunum. McIlroy átti ekki auðvelt með að taka ákvörðun árið 2016 en hann segir það öðruvísi í dag.

„Hugsunin mín var; Hvað mun fólki finnast um þessa ákvörðun?“ sagði McIlroy. „Um leið og ég hætti að hugsa um það og hugsaði um hvað væri rétt fyrir mig varð ákvörðunin auðveld.

Ákvörðunin var að ég ætla að spila fyrir landið sem ég hef alltaf spilað golf fyrir. Jafnvel þó Ólympíuleikarnir hafi gefið mér þetta val var það í raun ekki spurning þar sem ég hef alltaf spilað fyrir Írland. Það var mín ákvörðun.“

Sjá einnig:

Ólympíuleikarnir stóra markmiðið hjá Tiger Woods