Fréttir

Myndband: Woods ofarlega eftir fyrsta hring
Tiger Woods. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 23. janúar 2020 kl. 22:46

Myndband: Woods ofarlega eftir fyrsta hring

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods lék í dag sinn fyrsta keppnishring á árinu 2020 þegar hann hóf leik á Farmers Insurance Open mótinu sem er hluti af PGA mótaröðinni.

Woods lék hring dagsins á 3 höggum undir pari og er jafn í 16. sæti af 156 keppendum þegar fréttin er skrifuð.

Leikið er á tveimur völlum á Torrey Pines golfsvæðinu í mótinu, Norður- og Suðurvöllunum og hóf Woods leik á Norðurvellinum í dag. Hinn 44 ára gamli Woods hóf leik á 10. teig og fékk tvo fugla og tvo skolla á sínum fyrri níu holum.

Á seinni níu náði Woods að halda sér frá öllum vandræðum og lék þær á 33 höggum og kom inn á þremur höggum undir pari. Hann nýtti sér par 5 holurnar sérstaklega vel í dag en lék þær samtals á 3 höggum undir pari.

Þegar fréttin er skrifuð er Woods þremur höggum á eftir efsta manni sem er Daninn Sebastian Cappelen frá Danmörku en flestir kylfingar hafa lokið leik í dag.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.