Fréttir

Ragnhildur leiðir fyrir lokahringinn í KPMG Hvaleyrarbikarnum
Ragnhildur Kristinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 20. júlí 2019 kl. 18:24

Ragnhildur leiðir fyrir lokahringinn í KPMG Hvaleyrarbikarnum

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, er með þriggja högga forystu fyrir lokahringinn í KPMG Hvaleyrarbikarnum sem er haldinn á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði.

Ragnhildur hefur leikið fyrstu tvo hringi mótsins samtals á 4 höggum yfir pari en hún lék annan hringinn á pari vallarins. Á hring dagsins fékk Ragnhildur þrá fugla og þrjá skolla en fuglarnir komu á holum sem eru jafnan taldar frekar erfiðar (2., 9. og 12.) á meðan skollarnir komu á þægilegum holum (4., 6. og 17.).

Ragnhildur er þremur höggum á undan Huldu Clöru Gestsdóttur og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur sem eru jafnar í öðru sæti. Hulda Clara átti besta hring dagsins en hún lék á höggi undir pari í dag.

Lokahringur mótsins fer fram á morgun, sunnudag. Hér er hægt að sjá stöðuna.

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Ragnhildur Kristinsdóttir, +4
2. Hulda Clara Gestsdóttir, +7
2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, +7
4. Eva Karen Björnsdóttir, +9
5. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, +11