Fréttir

Reiknar með hærra skori en vanalega í móti vikunnar
Bryson DeChambeau slær í Dúbaí þar sem hann hefur titil að verja.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 22. janúar 2020 kl. 23:17

Reiknar með hærra skori en vanalega í móti vikunnar

Á fimmtudaginn hefst mót vikunnar á Evrópumótaröð karla sem ber heitið Omega Dubai Desert Classic. Mótið er haldið hjá Emirates golfklúbbnum í Dúbaí og hefur Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau titil að verja.

DeChambeau spilaði mótið í fyrra á 24 höggum undir pari en reikna má með því að sigurskorið verði hærra í ár ef eitthvað er að marka fjölmiðlamanninn Joy Chakravarty.

Chakravarty hefur fjallað um Omega Dubai mótið undanfarin 16 ár en hann skrifar á Twitter síðu sinni að hann hafi aldrei séð kargann jafn háan í mótinu eins og hann er núna.

„Karginn á Majlis vellinum hjá Emirates golfklúbbnum er algjörlega klikkaður. Boltar munu týnast í honum. Ég hef ekki séð annað eins þau 16 ár sem ég hef fjallað um mótið.“

Jafnframt sagði Chakravarty að hann reiknaði með því að niðurskurðarlínan yrði í kringum par en fyrir tveimur árum var hún -5.