Fréttir

Valdís búin með tvö mót í Ástralíu
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 24. janúar 2020 kl. 10:52

Valdís búin með tvö mót í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir GL er búin að leika í tveimur mótum á áströlsku ALPG mótaröðinni sem fóru fram í vikunni. Í báðum tilfellum var um að ræða eins dags mót og var árangur Valdísar misgóður.

Í fyrra mótinu, sem bar heitið Windaroo Lakes ALPG Pro/Am, lék Valdís á 76 höggum og endaði í 43. sæti af 81 keppenda. Fyrir það fékk hún engin peningaverðlaun en þau voru í boði fyrir þá kylfinga sem enduðu einu höggi betur en hún.

Í seinna mótinu lék Valdís hins vegar betur og endaði í 3. sæti á 71 höggi eða tveimur höggum undir pari en það mót hét Findex Yamba Pro/Am. Valdís varð tveimur höggum á eftir sigurvegaranum Holly Clyburn frá Englandi og höggi á eftir Kaori Toki frá Japan. Fyrir þann árangur fékk Valdís 1.125 ástralska dollara eða tæplega 100 þúsund krónur.

Framundan hjá Valdísi eru tvö mót til viðbótar á áströlsku mótaröðinni sem fara fram dagana 28.-29. janúar og 1.-2. febrúar. Að þeim loknum kemur í ljós hvort Valdís komist inn á tvö mót á LPGA mótaröðinni. Ekki er alveg ljóst í hvaða sæti Valdís þarf að vera í á stigalistanum en hún situr í dag í 21. sæti. Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum á áströlsku mótaröðinni.