Fréttir

„Þeir gefa mjög mikinn pening fyrir 20. sæti“
Kevin Kisner.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 14. janúar 2021 kl. 10:28

„Þeir gefa mjög mikinn pening fyrir 20. sæti“

Bandaríkjamaðurinn Kevin Kisner er á meðal keppenda á móti vikunnar á PGA mótaröðinni, Sony Open. Kisner, sem er jafnan skemmtilegur í viðtölum, var einn þeirra sem mætti á blaðamannafund í vikunni og stóðu svörin ekki á sér.

Aðspurður um völlinn í vikunni sagði Kisner: „Þetta er frá punkti A til B og svo þarf maður að setja nokkur pútt í. Þannig hugsa ég vanalega á PGA mótaröðinni. Ég er þakklátur þegar við fáum að spila golfvelli þar sem við getum spilað þannig og þetta snýst ekki bara um hversu langt þú getur slegið.“

Kisner er langt frá því að vera á meðal þeirra högglengstu á mótaröðinni og virtist hann meðvitaður um að hann ætti ekki möguleika á sigri á hvaða velli sem er.

„Líklega ekki. Ég er ekki að fara vinna á Bethpage Black eða Torrey Pines.“

Blaðamaðurinn spurði þá Kisner af hverju hann mætti hreinlega til leiks þegar hann teldi sig ekki eiga möguleika á sigri og var svarið hans frábært.

„Því þeir gefa mjög mikinn pening fyrir 20. sæti.“

Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan.