Fréttir

10 bestu kylfingarnir síðasta áratuginn á LPGA mótaröðinni
Lydia Ko er á listanum.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 1. desember 2019 kl. 08:00

10 bestu kylfingarnir síðasta áratuginn á LPGA mótaröðinni

Nú þegar áratugurinn 2010-2019 er brátt á enda kominn hefur fjölmiðillinn Golf Week tekið saman 10 bestu kylfingana sem leikið hafa á LPGA mótaröðinni þennan umrædda áratug.

Kylfingarnir sem um ræðir eru flestir enn við toppinn á heimslista kvenna en nokkrir af kylfingunum 10 eru farnir að íhuga sín næstu skref á ferlinum.

10. Brooke M. Henderson

Hefur unnið tvisvar öll síðustu fjögur tímabil. Sigursælasti kylfingur Kanada á báðum mótaröðum, PGA og LPGA, en hún hefur unnið 9 mót í heildina. Vann risamót einungis 18 ára gömul.

9. Suzann Pettersen

Endaði áratuginn með því að setja niður sigurpúttið í Solheim bikarnum í haust. Sigraði á níu mótum á LPGA mótaröðinni undanfarin 10 ár, meðal annars annan risatitil sinn. Var á meðal sex efstu á heimslista kvenna helminginn af áratugnum.

8. Cristie Kerr

Átta af 20 sigrum Kerr komu á síðustu 10 árum, meðal annars á KPMG PGA risamótinu þar sem hún sigraði með 12 högga mun. Kerr er sigursælasti kylfingur Bandaríkjanna í Solheim bikarnum en hún komst í efsta sæti heimslistans árið 2010.


Cristie Kerr.

7. Shanshan Feng

Hefur sigrað á 10 mótum á LPGA mótaröðinni frá árinu 2012. Feng komst fyrst allra frá Kína inn á LPGA mótaröðinni og varð þar að auki sú fyrsta til að vinna risamót. Árið 2016 fékk hún Ólympíubrons í Brasilíu en hún var alls í 23 vikur í efsta sæti heimslistans.

6. Lexi Thompson

Hefur unnið að minnsta kosti einn sigur á LPGA mótaröðinni undanfarin sjö ár en á enn eftir að komast í efsta sæti heimslistans. Thompson sigraði á 11 mótum á áratugnum og var með lægsta meðalskorið á mótaröðinni árið 2017.

5. Ariya Jutanugarn

Vann 10 mót á þremur árum, þar á meðal tvo risatitla. Jutanugarn hefur tvisvar orðið Kylfingur ársins og þar að auki tvisvar verið með lægsta meðalskorið á mótaröðinni en hún var í efsta sæti heimslistans í 23 vikur.


Ariya Jutanugarn.

4. Stacy Lewis

Síðasti bandaríski kylfingurinn sem komst í efsta sæti heimslista kvenna. Kylfingur ársins 2012 og 2014. Vann sinn annan risatitil og 11 af 12 sigrum á mótaröðinni á þessum áratug. Tvisvar var hún með lægsta meðalskorið á mótaröðinni (2013 og 2014).

3. Lydia Ko

Sló nánast öll met á sínum tíma sem báru heitið „Yngsti kylfingurinn til að....“ þegar hún var táningur. Alls vann Ko 15 titla á LPGA mótaröðinni og þar af tvo risatitla. Ko var 104 vikur í efsta sæti heimslistans og endaði í öðru sæti á Ólympíuleikunum í Brasilíu.

2. Yani Tseng

Var ótrúleg snemma á áratugnum þegar hún vann alls 13 sinnum á árunum 2010 til 2012. Á þeim tíma vann hún fjóra risatitla, komst í efsta sæti heimslistans og var valinn kylfingur ársins tvisvar en síðan þá hefur lítið sést frá henni á stærstu mótum heims.

1. Inbee Park

Var í efsta sæti heimslistans í 106 vikur frá árunum 2013 til 2018. Vann alls 18 af sínum 19 mótum á þessum áratug. Vann sex risatitla á þessum áratug, þar af þrjá í röð árið 2013 þegar hún komst nálægt því að ná grandslemmunni. Vann Ólympíugull í Brasilíu árið 2016.


Inbee Park.