Fréttir

15 ára kylfingur vann Koepka
Josh Hill
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 15:00

15 ára kylfingur vann Koepka

Hinn 15 ára gamli Josh Hill varð á dögunum yngsti kylfingurinn til þess að vinna mót samþykkt af heimslista atvinnukylfinga en hann var 15 ára og 8 mánaða þegar hann vann MENA Tour mótið í október. Hill mun þreyta frumraun sína á Evrópumótaröð karla í vikunni þegar hann tekur þátt í Abu Dhabi HSBC Championship mótinu og fara æfingarnar hjá honum vel af stað.

Hill tókst nefnilega að sigra efsta mann heimslistans, Brooks Koepka, í 8 holu keppni þegar þeir tóku æfingahring saman í vikunni. Ekki nóg með það heldur sló Hill einnig lengra en Koepka á nokkrum holum en Koepka er þekktur fyrir að vera ansi högglangur. 

„Þetta er góð reynsla, hann hefur auðvitað unnið nokkur risamót og er efstur í heiminum," sagði Hill þegar hann var spurður að því hvernig var að spila með Koepka. „Það er gott að læra af honum og læra hvernig hann æfir í vikunni og hvernig hann undirbýr sig fyrir mót. Hann er mjög fínn og slakur, þú getur spurt hann að hverju sem er. Ég sló lengra en hann á fimmtu og hann sagði ekkert en kannski ef ég slæ lengra en hann á seinni 9 þá segi ég bara 'sjáumst síðar Brooks'."