Fréttir

64 ára og komst í gegnum niðurskurðinn á PGA móti
Fred Funk.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 30. október 2020 kl. 22:06

64 ára og komst í gegnum niðurskurðinn á PGA móti

Það er Bryson DeChambeau sem er í efsta sætinu yfir högglengstu kylfinga PGA mótaraðarinnar á þessu tímabili en hann hefur slegið boltann að meðaltali 344,4 jarda af teig sem er rétt um 315 metrar.

Meðalhögglengd Fred Funk á PGA móti vikunnar er 234,8 jardar sem er tæplega 215 metrar. Það þýðir að Funk er að slá boltann rúmlega 100 metrum styttra en DeChambeau.  Funk tókst engu að síður að komast gegnum niðurskurðinn. Til að toppa árangurinn þá er hann orðinn 64 ára gamall og varð aðeins fjórði kylfingurinn síðan árið 1970 til að komast í gegnum niðurskurð á PGA mótaröðinni eftir að verða 64 ára gamall.

Sannarlega góður árangur en Funk vippaði ofan í á síðustu holunni til þess að gulltryggja sig áfram.