Fréttir

Á pari eftir fyrsta hring
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 29. apríl 2021 kl. 12:19

Á pari eftir fyrsta hring

Haraldur Franklín Magnús lék í dag fyrsta hringinn á Opna Bain's Whisky Cape Town mótinu í Suður-Afríku á pari vallarins. Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni í golfi og er annað mót tímabilsins.

Haraldur, sem hóf leik á 10. teig í morgun, fékk alls þrjá fugla á fyrri níu holunum sínum og lék þær á tveimur höggum undir pari. Spilamennskan snérist hins vegar við á seinni níu þegar Haraldur fékk þrjá skolla og endaði því daginn á parinu.


Skorkort Haralds.

Þegar fréttin er skrifuð er Haraldur jafn í 45. sæti af 156 kylfingum. Fjölmargir kylfingar eiga eftir að ljúka leik í dag og því getur staðan breyst eftir því sem líður á daginn.

Skorið verður niður í mótinu eftir tvo hringi og má reikna með að niðurskurðarlínan verði nálægt parinu. Haraldur er því í fínni stöðu til að halda áfram að tveimur hringjum loknum en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn í fyrsta móti ársins.

Heimamaðurinn Jacques Blaauw er í forystu á 6 höggum undir pari. Haraldur fer af stað klukkan 13:50 að staðartíma á föstudaginn á öðrum hring eða klukkan 11:50 að íslenskum tíma.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.