Fréttir

Aaron Wise bætti níu ára gamalt met Rory Sabbatini
Aaron Wise
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 08:00

Aaron Wise bætti níu ára gamalt met Rory Sabbatini

Aaron Wise vann sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni um helgina þegar að hann vann AT&T Byron Nelson mótið. Lokadagurinn var allt annað en venjulegur, en fjögurra tíma töf var á gerð á leik vegna mikillar rigningar og þurfti Wise meðal annars að biðja mömmu sína að yfirgefa hótelherbergi hans þar sem að hún talaði of mikið um lokahringinn.

Wise endaði mótið á 23 höggum undir pari og endaði á að sigra mótið með þremur höggum. Marc Leishman varð í öðru sæti á 20 höggum undir pari.

Þetta var í fyrsta skipti sem einhver leikmaður endaði mótið á lægra skori en 20 höggum undir pari, en áður hafði Rory Sabbatini átt metið. Hann lék á samtals 19 höggum undir pari í þessu móti árið 2009. Því má segja að bæði Wise og Leishman hafi bætt metið.

Wise sagði eftir að mótið að rigningin hefði hjálpað sér mikið þar sem að hann hefði mikið getað notað dræver af teig.

„Þegar rigningin hætti þá leið mér eins og ég gæti spilað mjög vel vegna þess að það gerði mér kleift að nota dræverinn mikið, sem er einn af mínum helstu styrkleikum. Þar af leiðandi sló ég mikið af stuttum járnum inn á flatirnar og fékk því mikið af fuglafærum.“