Fréttir

Afrekskylfingar af norðan náðu góðum árangri á Global Junior Golf mótaröðinni
Lárus Ingi Antonsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 17. febrúar 2020 kl. 20:30

Afrekskylfingar af norðan náðu góðum árangri á Global Junior Golf mótaröðinni

Sex kylfingar af norðan luku nýverið leik á tveimur mótum sem eru hluti af World Junior Golf mótaröðinni. Mótin fóru fram í Portúgal og voru þetta annars vegar Portuguese Intercollegiate Open 2020 mótið og hins vegar og Atlantic Youth Trophy mótið. Íslensku kylfingarnir sem voru á meðal keppenda voru þau Andrea Ýr Ásmundsóttir, Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Arnór Tjörvi Þórsson, Lárus Ingi Antonsson, Skúli Ágústsson og Veigar Heiðarsson.

Portuguese Intercollegiate Open

Portuguese Intercollegiate Open mótið fór fram dagana 8.-11. febrúar. Leikið var í tveimur flokkum í því móti, stelpu- og strákaflokki.

Amanda Guðrún náði fínum árangri í mótinu og endaði í fjórða sæti á samtals 23 höggum yfir pari. Andrea Ýr varð jöfn í 10. sæti á samtals 38 höggum yfir pari.

Af strákunum þá varð Lárus Ingi efstur á samtals 26 höggum yfir pari og dugði það í 36. sæti ásamt fleirum. Arnór Tjörvi endaði í 55. sæti á 42 höggum yfir pari. Skúli varð jafn í 56. sæti á 43 höggum yfir pari og að lokum endaði Veigar 63. sæti á 55 höggum yfir pari.

Lokastöðu Portuguese Intercollegiate mótsins má nálgast hérna.

Atlantic Youth Trophy

Atlantic Youth Trophy mótið fór fram dagana 13.-16. febrúar og var þá leikið í þremur flokkum, stráka- og stelpuflokki og svo í strákaflokki fyrir 14 ára og yngri.

Þar endaði Andrea í fimmta sæti á samtals 21 höggi yfir pari á meðan Amanda endaði í sjöunda sæti á samtals 26 höggum yfir pari.

Lárus Ingi og Arnór Tjörvi léku báðir í strákaflokki og endaði Lárus jafn í 14. sæti á 12 höggum yfir pari. Arnór Tjörvi endaði svo jafn í 22. sæti á 18 höggum yfir pari.

Að lokum léku þeir Skúli og Veigar í 14 ára og yngri flokknum og enduðu þeir í tveimur efstu sætunum. Skúli endaði efstur á 18 höggum yfir pari og Veigar höggi þar á eftir í öðru sæti.

Lokastöðu Atlantic Youth Trophy mótsins má nálgast hérna.

Blaðamaður Kylfings heyrði í Heiðari Davíð Bragasyni þjálfara Golfklúbbs Akureyrar og sagði hann að þetta hafi verið frábært tækifæri fyrir kylfingana að komast í leikform og koma tæknivinnu vetrarins út á völl. Einnig sagði hann að völlurinn hafi verið skemmtilegur og þröngur skógarvöllur. Völlurinn hafi hins vegar verið blautur og því hafi kylfingar ekki fengið neitt rúll á brautum. Yngstu strákarnir léku á hvítum teigum í fyrra mótinu og var það helst til of langt þar sem ekkert rúll var. Hann sagði svo að lokum að hann hafi verið mjög sáttur með frammistöðu hópsins, þá sérstaklega í síðara mótinu. Leikmenn fengu mikið út úr mótunum og færu allir kylfingar heim með verkefni til að undirbúa sig fyrir æfingaferð sem farin verður í apríl til Novo Sancti Petri á Spáni.