Fréttir

Aftur sigraði Jon Rahm á Opna írska mótinu
Jon Rahm.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 7. júlí 2019 kl. 16:48

Aftur sigraði Jon Rahm á Opna írska mótinu

Spánverjinn Jon Rahm stóð uppi sem sigurvegari á Opna írska mótinu sem fór fram á Evrópumótaröð karla um helgina. Rahm lék hringina fjóra á 16 höggum undir pari og varð að lokum tveimur höggum á undan Andy Sullivan og Bernd Wiesberger.

Rahm átti besta hring dagsins í dag þegar hann kom inn á 8 höggum undir pari. Á hringnum fékk Rahm alls átta fugla, einn örn og tvo skolla en hann var í 9. sæti fyrir lokadaginn.

Þetta er annar sigur Rahm á Opna írska mótinu en hann sigraði einnig á mótinu árið 2017. Um er að ræða eitt stærsta mót ársins á Evrópumótaröðinni fyrir utan risa- og heimsmótin.

Með sigrinum er Rahm kominn með fjóra sigra á Evrópumótaröðinni en auk þess hefur þessi 24 ára gamli kylfingur sigrað á þremur mótum á PGA mótaröðinni.

Robert Rock, sem var í forystu eftir þrjá hringi í mótinu, lék lokahringinn á parinu og endaði í 4. sæti ásamt þeim Eddie Pepperell og Rafa Cabrera Bello.

Sigurvegari síðasta árs, Russell Knox, endaði í 31. sæti á 5 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga:

1. Jon Rahm, -16
2. Andy Sullivan, -14
2. Bernd Wiesberger, -14
4. Eddie Pepperell, -13
4. Rafa Cabrera Bello, -13
4. Robert Rock, -13

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640