Fréttir

Ágúst varð klúbbmeistari í Svíþjóð
Föstudagur 12. ágúst 2022 kl. 11:45

Ágúst varð klúbbmeistari í Svíþjóð

Keiliskylfingurinn Ágúst Ársælsson varð klúbbmeistari hjá Hulta golfklúbbnum í Svíþjóð en leiknar voru 54 holur um síðustu helgi. Ágúst lék á +3 og fyrir sigurinn var honum hent út í tjörnina við 9. flötina en það er gömul hefð í klúbbnum.

Ágúst lék hringina þrjá á 69-75-75. Hann háði harða keppni við tvo aðra kylfinga, m.a. Mats Kinnbergs, fyrirliða hjá eldri landsliði Svía. 

Ágúst er með +2,7 í forgjöf og hefur alla tíð verið Keilismaður en á þó að baki einn meistaratitil hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Hann hefur stundum farið út á sumrin og gerðist félagi í sumar í þessum klúbbi sem er staðsettur rétt utan Gautaborgar í Bollebyggd. 

„Þetta var gaman að fá að fjúkja í tjörnina. Það er flott að spila golf hérna í blíðunni á sumrin,“ sagði Ágúst í stuttu spjalli við kylfing.is.

Hér má sjá þegar Ágústi var hent út í tjörnina.