Fréttir

Andri og Guðmundur saman í holli í lokaúrtökumótinu
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 13. nóvember 2019 kl. 20:00

Andri og Guðmundur saman í holli í lokaúrtökumótinu

Lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröð karla hefst á föstudaginn. Í fyrsta skiptið í sögunni verða þrír íslenskir kylfingar með í mótinu og verða tveir þeirra saman í holli fyrstu tvo hringina.

Rástímar tvo fyrstu hringi mótsins voru birtir í dag og kom þar fram að þeir Andri Þór Björnsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson verða saman í holli á Hills vellinum á Lumine svæðinu. Annan daginn leika svo íslensku strákarnir allir á Lakes vellinum.

Andri og Guðmundur byrja klukkan 10:40 að staðartíma á föstudaginn eða 9:40 að íslenskum tíma og leika með Frakkanum Frederic Lacroix.

Tuttugu mínútum seinna fer Bjarki Pétursson að stað og leikur hann með Max Rotluff og Rasmus Hojgaard. Hojgaard er einn efnilegasti kylfingur Evrópu en hann varð 18 ára á árinu og hefur verið að gera fína hluti á Áskorendamótaröðinni í golfi. Bróðir hans, Nicolai, er einnig með en hann endaði til að mynda í 2. sæti á móti á Evrópumótaröðinni í sumar.

Á laugardaginn fara svo Andri og Guðmundur út klukkan 9:30 og Bjarki 9:50. Alls eru leiknir fjórir hringir áður en skorið verður niður og komast þá 70 kylfingar áfram. Þá taka við tveir hringir og fá á endanum 25 kylfingar fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni. Hér er hægt að lesa nánar um það.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda.


Rástímar íslenska hópsins á fyrsta keppnisdegi.