Fréttir

Andri Þór lék á úrtökumóti fyrir Opna mótið
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 24. júní 2019 kl. 14:00

Andri Þór lék á úrtökumóti fyrir Opna mótið

Andri Þór Björnsson, GR, lék í dag á úrtökumóti á Panmure vellinum fyrir Opna risamótið sem fer fram á Royal Portrush vellinum í júlí.

Andri Þór byrjaði hringinn vel og var á parinu eftir fyrri níu þar sem hann var búinn að fá einn fugl og einn skolla. Á seinni níu hélt hann áfram að leika vel og var kominn með einn fugl í viðbót eftir 12 holur.

Slæmur lokakafli varð Andra líklega að falli en hann lék 14. holuna á 9 höggum áður en hann fékk skolla á 15. holu og 18. holu. Niðurstaðan var því 5 högg yfir par.

Þegar fréttin er skrifuð er Andri jafn í 11. sæti en enn eiga nokkrir kylfingar eftir að ljúka leik. Ekki er víst hversu margir komast áfram í lokaúrtökumótin en það kemur í ljós seinna í dag. Reikna má með því að um 140 kylfingar komist áfram en leikið er á 13 mismunandi stöðum í dag.

Hér er hægt að sjá stöðuna í úrtökumótinu á Panmure vellinum.