Fréttir

Árið byrjar ekki vel hjá Jordan Spieth
Jordan Spieth
Föstudagur 11. janúar 2019 kl. 12:00

Árið byrjar ekki vel hjá Jordan Spieth

Eins og greint var frá nýlega hefur Jordan Spieth átt erfitt uppdráttar undanfarið en honum tókst ekki að vinna eitt einasta mót á síðasta ári. Ekki byrjar þetta ár mikið betur en Spieth kom í hús á 73 höggum, eða þremur höggum yfir pari, á fyrsta hring Sony Open mótsins sem fram fór í gær.

Þetta var versta skor Spieth á þessu móti af öllum þeim 11 hringjum sem hann hefur spilað. Þetta var einnig í fyrsta sinn síðan í frumraun hans á mótinu árið 2014 sem honum tókst ekki að koma í hús á undir 70 höggum. Það ár missti hann niðurskurðinn er hann lék á 70 og 71 höggi. 

Spieth fékk aðeins einn fugl á hringnum og fjóra skolla. Hann var svo nálægt því að fá refsingu þegar að hann gleymdi sér og ætlaði að láta boltann falla úr axlarhæð líkt og hefur verið venjan. Regluvörður stoppaði hann hins vegar af í tæka tíð og minnti hann á að nú þyrfti að láta boltann falla úr hné hæð og slapp Spieth því með skrekkinn.