Fréttir

Arnar Már ráðinn afreksþjálfari GKG
Arnar Már Ólafsson hér lengst t.v. ásamt landsliðskylfingnum Bjarka Péturssyni.
Mánudagur 3. desember 2018 kl. 20:54

Arnar Már ráðinn afreksþjálfari GKG

Arnar Már Ólafsson, PGA golfkennari, hefur verið ráðinn nýr afreksþjálfari GKG og tekur til starfa um áramótin. Arnar Már er einn reynslumesti og farsælasti golfþjálfari Íslands en hann hefur undanfarin ár þjálfað nokkra af bestu kylfingum landsins auk þess að starfa sem yfirþjálfari í Þýskalandi.

Arnar Már útskrifaðist úr sænska PGA golfkennaraskólanum 1991 og starfaði í 8 ár sem afreksþjálfari hjá Golfklúbbnum Keili. Hann starfaði síðan í Þýskalandi hjá Gut Düneburg Golf Club frá 1996 til 2004.  Þaðan fór hann til Berlin Wannsee Golf-Landclub, sem er elsti og einn merkasti golfklúbbur Þýskalands, en flutti heim 2006 og starfaði sem unglingalandsliðsþjálfari hjá Golfsambandinu, jafnframt því sem hann stofnaði og kenndi við Golfkennaraskóla PGA á Íslandi. Seinustu 10 ár hefur hann starfað sem yfirþjálfari hjá Berlin Wannsee Golf Landcub.

Undanfarin ár hefur Arnar þjálfað afrekskylfinga í fremstu röð, t.a.m. Phillip Mejow sem leikur á Evrópu- og Áskorendamótaröðinni, og landsliðsmennina Bjarka Pétursson, Guðmund Ágúst Kristjánsson og Andra Þór Björnsson.

Arnar fékk gullmerki GSÍ árið 2012 fyrir framlag sitt til golfíþróttarinnar á Íslandi, ekki síst fyrir að tryggja PGA golfkennaraskólanum fulla viðurkenningu innan evrópsku PGA samtakanna.


Arnar Már hlaut gullmerki GSÍ árið 2012.

Ísak Jasonarson
[email protected]