Fréttir

Aron Snær meðal 20 efstu á UNICEF championship
Aron Snær Júlíusson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 24. júní 2022 kl. 11:45

Aron Snær meðal 20 efstu á UNICEF championship

Aron Snær Júlíusson úr GKG hafnaði í 13.-17. sæti á UNICEF Championship sem lauk í Danmörku í dag en mótið er hluti af Ecco mótaröðinni og Nordic Golf League.

Aron, sem var á 3 höggum undir pari fyrir lokadaginn, kom í hús á 73 höggum á lokahringnum eða á 1 höggi yfir pari Sky vallarins á Lübker Sand í Danmörku.

Hann lauk leik á samtals 214 höggum (70-71-73) á hringjunum þremur eða á 2 höggum undir pari. Hann fékk einn þrefaldan skolla, tvo skolla og fjóra fugla á lokahringnum í dag.

Fjórir íslenskir keppendur léku á mótinu. Aron Bergsson sem leikur fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð lék á 75 höggum eða á 3 höggum yfir pari á fyrsta hring og á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari á öðrum hring. Hann lauk leik á 4 höggum yfir pari en niðurskurður miðaðist við 3 högg yfir par. Gísli Sveinbergsson úr GK lék fyrsta hring á 76 höggum eða á 4 höggum yfir pari og annan hring á pari. Hann missir því af niðurskurðinum rétt eins og Aron. Hákon Harðarson, sem leikur fyrir Royal Golfklúbbinn í Danmörku náði sér engan veginn á strik á fyrsta hring og lék á 83 höggum eða á 11 höggum yfir pari vallarins. Hákon bætti sig um þrjú högg á öðrum hring og lauk leik á 19 höggum yfir pari samtals.

Það var Daninn, Christian Jacobsen, sem stóð uppi sem sigurvegari en hann lagði landa sinn, Jeppa Kristian Andersen á fyrstu holu í umspili. Þeir luku leik á samtals 9 höggum undir pari vallarins á hringjunum þremur.

Lokastaðan á mótinu