Fréttir

Axel fagnaði árangrinum með pizzu og Guardians of the Galaxy
Axel og Birgir Leifur.
Fimmtudagur 16. ágúst 2018 kl. 08:38

Axel fagnaði árangrinum með pizzu og Guardians of the Galaxy

Axel Bóasson er mættur til Norður-Írlands þar sem næsta mót á Áskorendamótaröðinni fer fram. Í undirbúningi sínum fyrir mótið var hann fenginn í viðtal hjá Evrópumótaröðinni.

Þar var hann spurður út í mót síðustu helgar þar sem hann endaði í öðru sæti, ásamt Birgir Leifi Hafþórssyni, í Evrópumóti í liðakeppni.

„Ég bjóst ekki við þessum árangri ef ég á að vera hreinskilinn. Að vinna tvær medalíur var þvílíkur bónus. Þetta var mjög langt mót. Á sunnudaginn spiluðum við 36 holur við erfiðar aðstæður en mér líður vel komandi inn í þetta mót.

Mér leið í raun ekki eins og ég hafi spilað frábærlega. Við Birgir Leifur náðum einfaldlega bara mjög vel saman.

Við höfum þekkt hvorn annan mjög lengi og ég hef sömuleiðis spilað með stelpunum frá því að við vorum unglingar þannig að það hefur pottþétt hjálpað. Við höfum líka spilað svipað fyrirkomulag á Íslandi sem ég tel að hafi einnig hjálpað.“

Axel fagnaði árangrinum á óvenjulegan hátt þar sem Birgir Leifur var veikur eftir mótið.

„Liðsfélaginn minn var veikur þannig við fórum ekki út að skemmta okkur. Minn fögnuður samanstóð af því að drekka Coca-Cola, borða pizzu og horfa á Guardians of the Galaxy í þriðja skiptið.“

Aðspurður um mót helgarinnar er Axel bjartsýnn á framhaldið. Hann þurfi einfaldlega að hætta þvinga hlutina og treysta því sem hann er að vinna í.

„Það hefur ekki gengið nógu vel hjá mér í ár á Áskorendamótaröðinni. Þegar þú byrjar illa finnst þér alltaf eins og þú sért að elta, og á tímabili hefur mér fundist eins og ég hef verið að þvinga hlutina þegar ég hef verið tæpur á að ná niðurskurði. Ég þarf einfaldlega að halda áfram, slaka á og treysta ferlinu.“

Axel hefur leik á Áskorendamótaröðinni í dag. Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.

Ísak Jasonarson
[email protected]