Fréttir

Besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni staðreynd
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 6. september 2020 kl. 14:02

Besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni staðreynd

Guðmundur Ágúst Kristjánsson var rétt í þessu að ljúka leik á Northern Ireland Open mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Hann endaði mótið jafn í 5. sæti og bætti þar með sinn besta árangur á mótaröðinni til þessa.

Fyrir daginn var Guðmundur á sex höggum undir pari fjórum höggum á eftir efsta mann. Hann byrjaði daginn á fugli og fékk síðan átta pör í röð. Síðari níu holurnar byrjaði hann á erni og var þá kominn í annað sætið einu höggi á eftir efsta manni. Hann komst þó ekki lengra og fékk átta par í röð til að enda daginn á 67 höggum eða þremur höggum undir pari.

Eins og áður sagði endaði Guðmundur jafn í 5. sæti á samtals níu höggum undir pari. Fyrir daginn í dag var besti árangur Guðmundar níunda sæti en hann náði þeim árangri í fyrra á Stone Irish Challenge mótinu fyrir rétt um ári síðan.

Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson voru einnig á meðal keppenda og luku þeir leik fyrr í dag.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.