Fréttir

Besti hringur Woods í tvo mánuði
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 18. ágúst 2019 kl. 11:45

Besti hringur Woods í tvo mánuði

Tiger Woods lék á 67 höggum eða 5 höggum undir pari á þriðja hringnum á BMW meistaramótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni.

Alls fékk Woods fimm fugla og tapaði ekki höggi en þetta er í fyrsta skiptið frá því í þessu sama móti fyrir ári sem Woods fær ekki skolla. Jafnframt er þetta lægsta skor Woods í móti frá því á Memorial mótinu í júní á þessu ári.

„Eini munurinn milli daga var sá að ég náði að bjarga mér. Ég gerði engin heimskuleg mistök eins og að fá skolla úr auðveldri stöðu,“ sagði Woods eftir þriðja hringinn.

Eftir hringinn er Woods jafn í 31. sæti í mótinu á 7 höggum undir pari í heildina. Hann þarf á öðrum góðum hring að halda í dag til þess að enda í einu af 11 efstu sætunum og komast þar með inn á lokamót tímabilsins, TOUR Championship.

Eins og áður hefur komið fram á Kylfingi komast 30 efstu kylfingar stigalistans eftir BMW meistaramótið inn á TOUR Championship. Fyrir mót helgarinnar var Woods í 38. sæti en áætlað er að hann falli niður í 40. sæti ef hann endar í 31. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.