Fréttir

Bianca ætlar að verða fyrst til að slá boltann yfir 300 jarda að meðaltali af teig
Bianca Pagdanganan.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 27. október 2020 kl. 15:44

Bianca ætlar að verða fyrst til að slá boltann yfir 300 jarda að meðaltali af teig

Bianca Pagdanganan er á sínu fyrsta ári á LPGA mótaröðinni eftir að hafa unnið sér inn þátttökurétt í úrtökumóti í lok síðasta árs. Hún hefur náð að leika í sex mótum á árinu og hefur árangur hennar verið með besta móti, þó aðallega síðastliðin tvö mót. 

Á KPMG PGA meistaramóti kvenna endaði Paganganan jöfn í níunda sæti og nú um helgina endaði hún ein í þriðja sæti, tveimur höggum á eftir Ally McDonald sem bar sigur úr býtum.

Pagdanganan verður 23 ára gömul á morgun og er hún frá Filipseyjum. Hún lék með Háskólanum í Arizona og var alltaf þekkt fyrir það hvað hún slær langt. Það hefur lítið breyst því hún er í efsta sæti yfir högglengsu kylfinga LPGA mótaraðarinnar. Að meðaltali hefur hún slegið boltann 288,8 jarda (264 metra) af teig og er hún að slá rúmlega 5 metrum lengra en þær Maria Fassi og Anne van Dam.

Faðir Pagdanganan hefur sagt að hún vilji verða fyrsti kylfingurinn til þess að slá boltann yfir 300 jarda að meðaltali yfir heilt tímabil. Þrátt fyrir að vera tæplega 12 jördum frá því þá var hún grátlega nálægt því um helgina að slá boltann yfir 300 jarda.

Fyrsta hringinn sló hún boltann að meðaltali 300 jarda, annan hringinn náði hún 295 jördum, þann þriðja sló hún boltann 310 jarda og á lokadeginum sló hún 293 jarda að meðaltali af teig. Þetta gerir 299,5 jardar að meðaltali af teig sem er alveg grátlega nálægt.

Það er því ljóst að það er eflaust bara spurning um hvenær en ekki hvort hún nái að slá boltann yfir 300 jarda að meðaltali í einu móti og þá í framhaldinu að ná því yfir heilt tímabil.