Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Birgir Leifur fékk tvo erni og komst í gegnum niðurskurðinn
Birgir Leifur Hafþórsson.
Föstudagur 21. september 2018 kl. 18:30

Birgir Leifur fékk tvo erni og komst í gegnum niðurskurðinn

Birgir Leifur Hafþórsson komst í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi á Portugal Masters mótinu sem fram fer á Evrópumótaröð karla. Birgir Leifur var í miklu stuði á öðrum hringnum og kom inn á 5 höggum undir pari og var alveg við niðurskurðarlínuna.

Fyrir daginn var Birgir á tveimur höggum yfir pari og meðal neðstu manna. Útlit var fyrir að hann þyrfti að leika á nokkrum höggum undir pari til þess að komast áfram sem varð svo raunin.

Birgir fékk alls fjóra fugla og þrjá skolla en bætti við sig tveimur örnum í þokkabót. Ernirnir komu á 5. og 12. holu sem báðar eru par 5 holur. Íslenskir kylfingar gætu kannast við þessar holur en leikið er á Vilamoura golfvellinum í Portúgal.

Þess má geta að Birgir Leifur hóf leik á 10. teig í morgun þannig að hann lék síðustu 8 holurnar á fjórum höggum undir pari og fékk meðal annars fugl á síðustu holunni til þess að tryggja sig áfram.

Þriðji hringur mótsins fer fram á morgun, laugardag, og er þá kjörið tækifæri fyrir okkar mann að koma sér hærra upp listann en hann situr í 65. sæti eftir tvo hringi.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Sjá einnig:

Fyrstur til að leika á 59 höggum á Evrópumótaröðinni

Ísak Jasonarson
isak@vf.is
Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)