Fréttir

Birgir Leifur úr leik eftir slæman endasprett
Birgir Leifur Hafþórsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 22. júní 2019 kl. 08:00

Birgir Leifur úr leik eftir slæman endasprett

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, var á meðal keppenda á Costa del Sol mótinu sem fer fram á Áskorendamótaröðinni í golfi um helgina.

Birgir Leifur, sem var meðal 10 efstu að fyrsta keppnisdegi loknum, lék annan hring mótsins á 5 höggum yfir pari og varð því einungis höggi frá því að komast áfram í 64 manna holukeppni sem er nú þegar farin af stað.

Birgir hóf leik á 10. teig á öðrum keppnisdegi og byrjaði illa en eftir sjö holur var hann kominn 5 högg yfir par. Hann svaraði því hins vegar frábærlega með fugli á 17. holu og erni á 1. holu og var þá á 2 höggum yfir pari og í heildina á parinu.

Þegar fjórar holur voru eftir var Birgir Leifur enn á parinu en þrír skollar á síðustu fjórum holunum komu í veg fyrir að hann kæmist áfram.

Þetta er fyrsta mót Birgis á tímabilinu á Áskorendamótaröðinni en hann hefur haft hægt um sig í keppnisgolfinu frá því í nóvember á síðasta ári.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.