Fréttir

Bjarki valinn í úrvalslið MAC deildarinnar
Lið Kent State sem fagnaði sigri á MAC meistaramótinu.
Laugardagur 11. maí 2019 kl. 15:26

Bjarki valinn í úrvalslið MAC deildarinnar

Borgnesingurinn Bjarki Pétursson, sem leikur fyrir Kent State háskólann í Ohio, var á dögunum valinn í úrvalslið Mið-Ameríku deildarinnar (Mid-American Conference) eftir fínt tímabil í bandaríska háskólagolfinu.

Þjálfarar þeirra níu skóla sem leika í deildinni völdu leikmenn í liðið og er þetta því mikill heiður fyrir Bjarka sem er á lokaári sínu í háskólagolfinu.

Bjarki lék að meðaltali á 73 höggum á þessu ári og endaði fjórum sinnum í topp-20. Besti árangur hans kom á MAC meistaramótinu þar sem hann endaði í 9. sæti á 4 höggum yfir pari.

Gísli Sveinbergsson, sem leikur einnig fyrir Kent State skólann, var valinn í varalið MAC deildarinnar. Meðalskor Gísla á tímabilinu var 73,25 högg þar sem hann endaði þrisvar í topp-20. Besti árangur hans kom einnig á MAC meistaramótinu mótinu þegar hann endaði í 2. sæti.

Framundan hjá Kent State liðinu er Regionals mótið sem fer fram dagana 13.-15. maí. Takist liðinu að enda í einu af fimm efstu sætunum í því móti bíður þeirra stærsta mót hvers árs í bandarísku háskólagolfi, NCAA meistaramótið.

Ísak Jasonarson
[email protected]