Fréttir

Cameron Young leiðir á St. Andrews en Rory er skammt undan
Cameron Young á 18. braut í dag. Ljósmynd: AP
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 14. júlí 2022 kl. 21:50

Cameron Young leiðir á St. Andrews en Rory er skammt undan

Síðasta risamót ársins, Opna mótið hófst í dag í 150. sinn og er vettvangur mótsins í ár hinn goðsagnakenndi, sögufrægi strandvöllur, St. Andrews í Skotlandi. Völlurinn leit út fyrir að vera í topp-standi á fyrsta hring í dag og kylfingar náðu góðu skori, sér í lagi þeir sem ræstir voru út snemma. Vindurinn spilaði stærra hlutverk seinni partinn og það bitnaði heilt yfir á skori kylfinga sem voru úti um miðjan daginn í dag.

Staðan á mótinu

Bandaríkjamaðurin Cameron Young lék best allra í dag en hann kom í hús á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari vallarins. Hann fékk 8 fugla á hringum og tapaði ekki höggi í dag. Young er 25 ára gamall og er á sínu fyrsta tímabili á PGA-mótaröðinni. Hann hefur ekki enn unnið mót á mótaröðinni en hann varð jafn í öðru sæti á Genesis Invitational í febrúar og jafn í þriðja sæti á PGA meistaramótinu í maí.

Skammt undan lúrir Norður-Írinn, Rory McIlroy á 6 höggum undir pari. Rory fékk sjö fugla á hringum en tapaði einu höggi. Hann hefur leikið vel að undanförnu, varð annar á Masters mótinu á Augusta National í apríl sl. og varði titlinn á RBC Canadian Open í síðasta mánuði. Rory McIlroy er til alls líklegur á St. Andrews.

Ástralinn Cameron Smith, sem sigraði á Players meistaramótinu í mars, er á 5 höggum undir pari eftir fyrsta hringinn. Smith fékk sex fugla á hringnum í dag en tapaði einu höggi. Lítt þekktur kylfingur, Englendingurinn Robert Dinwiddie, er einnig á 5 höggum undir pari. Dinwiddie hefur gert ágætlega á Evrópumótaröðinni. Hann hefur aldrei komist í gegnum niðurskurðinn á Opna mótinu en mótið í ár er hans þriðja.

Nokkrir þekktir kylfingar eru á 4 höggum undir pari. Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler sem leiðir bæði heimslistann og stigalistann til FedEx bikarsins fékk fimm fugla og tapaði einu höggi í dag en hann var meðal fárra sem ræstur var út seinni partinn í dag og náði góðu skori. Scheffler var óstöðvandi fyrri hluta ársins og vann fjögur mót í febrúar, mars og apríl, þ.á.m. fyrsta risamót ársins, sjálft Masters mótið á Augusta National. Scheffler hefur aðeins gefið eftir undanfarið en er auðvitað til alls líklegur á mótinu. LIV Golf-ararnir, Bandaríkjamaðurinn Dustin Johsnon og Englendingurinn Lee Westwood eru einnig á 4 höggum undir pari sem og Norðmaðurinn Viktor Hovland.

Goðsögnin Tiger Woods byrjaði illa í dag og náði í sjálfu sér aldrei flugi. Hann fékk fugla á 9. og 10. holu en þegar hann steig á 9. teiginn var hann kominn á 6 högg yfir par. Þrír skollar í viðbót á seinni níu holunum og einn fugl skiluðu honum í hús á 78 höggum eða á 6 höggum yfir pari. Tiger þarf að eiga frábæran hring á morgun til að eiga möguleika á að spila "The Old Course" um helgina.

Fyrstu menn fara út á annan hringinn upp úr klukkan hálfsex í fyrramálið á íslenskum tíma. Úr hópi efstu mann fara Dustin Johnson og Scottie Scheffler út fyrstir eða upp úr klukkan sjö í fyrramálið. Cameron Smith og nafni hans Young eiga rástíma upp úr klukkan 12 á hádegi og Rory McIlroy um klukkan tvö.

Fylgst verður vel með mótinu hér á kylfingur.is.