Fréttir

Campillo: Svo stoltur af spilamennskunni
Jorge Campillo.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. mars 2020 kl. 21:00

Campillo: Svo stoltur af spilamennskunni

Spánverjinn Jorge Campillo sigraði í dag á Qatar Masters mótinu sem fór fram á Evrópumótaröð karla eftir fimm holu bráðabana gegn Skotanum David Drysdale.

Campillo hefur nú sigrað á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni en hann var að vonum sáttur með sigurinn.

„Þetta var erfitt en ég er glaður að hafa náð þessu. Ég sló nokkur góð högg á miðjum hringnum en maður þarf að vera þolinmóður,“ sagði Campillo. „Ég vissi að ég myndi setja einhver pútt í.“

Það gerði Spánverjinn svo sannarlega en hann fór á kostum í bráðabananum og fékk þrjá fugla á holunum fimm en í öll skiptin spiluðu þeir Drysdale 18. holuna sem er ein erfiðasta hola vallarins.

„Þetta er frábær par 4 hola, 18. holan. Erfið hola. David sló nokkur frábær högg og ég þurfti að setja niður góð pútt. Þrír fuglar í sex tilraunum á 18. holu er eitthvað til að vera stoltur yfir.

Ég er bara svo stoltur af spilamennskunni minni í bráðabananum. Ég missti varla högg og mér tókst að setja niður nokkur pútt. Ég er mjög þakklátur öllum sem hjálpuðu mér.“

Hinn 33 ára gamli Campillo hafði spilað í 229 mótum áður en hann fagnaði sínum fyrsta sigri á mótaröðinni í fyrra en hefur nú unnið tvö ár í röð.