Fréttir

DeChambeau bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína
Bryson DeChambeau.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 20. september 2020 kl. 22:16

DeChambeau bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína

Það má með sanni segja að Bryson DeChambeau hafi borið höfuð og herðar yfir keppinauta sína á lokadegi Opna bandaríska meistaramótsins sem lauk fyrr í kvöld. Hann var eini kylfingurinn sem lék undir pari í dag og er það aðeins í fjórða skiptið sem það gerist í sögu mótsins að sigurvegari mótsins sé eini kylfinguinn sem leikur lokahringinn undir pari. Hann var jafnframt eini kylfingurinn sem endaði mótið undir pari.

Fyrir daginn var Matthew Wolff efstur á samtals fimm höggum undir pari. DeChambeau var svo tveimur höggum þar á eftir. Eftir fjórar holur var staðan aftur á móti orðin jöfn og eftir fimm holur var DeChambeau komin á fjögur högg undir par á meðan Wolff var á samtals þremur höggum undir pari. Þá forystu lét DeChambeau aldrei af hendi og lék hann við hvern sinn fingur.

Hann kom að lokum í hús á 67 höggum í dag eða þremur höggum undir pari og endaði hann mótið því samtals á sex höggum undir pari. 

Wolff varð að láta sér lynda annað sætið eftir lokahring upp á 75 högg eða fimm högg yfir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.