Fréttir

DeChambeau braut dræverinn á fyrsta keppnisdegi PGA meistaramótsins
Bryson DeChambeau er einn högglengsti kylfingur PGA mótaraðarinnar.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 7. ágúst 2020 kl. 08:23

DeChambeau braut dræverinn á fyrsta keppnisdegi PGA meistaramótsins

Bryson DeChambeau lenti í ansi skondnu atviki á fyrsta keppnisdegi PGA meistaramótsins sem fór fram í gær, fimmtudag.

DeChambeau var nýbúinn að slá fínt teighögg á 7. holu TPC Harding Park vallarins og var að ná í tíið sitt þegar dræverinn gaf sig. DeChambeau virtist ekki hafa náð að setja mikinn þunga á dræverinn þegar hann brotnaði og því líklegt að hann hafi brotið hann í umræddu teighöggi.

Liðsmenn DeChambeau voru ekki lengi að ná í nýtt skaft og var Bandaríkjamaðurinn því kominn með dræver í pokann stuttu seinna.

DeChambeau spilaði fyrsta hring PGA meistaramótsins á 2 höggum undir pari og er jafn Tiger Woods og fleiri góðum kylfingum í 20. sæti.