Fréttir

Dustin Johnson með eins höggs forystu fyrir lokahringinn
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 9. ágúst 2020 kl. 10:01

Dustin Johnson með eins höggs forystu fyrir lokahringinn

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er með eins höggs forystu fyrir lokahringinn á fyrsta risamóti ársins, PGA meistaramótinu.

Johnson lék þriðja hring mótsins á 5 höggum undir pari og er á 9 höggum undir pari í heildina. Alls fékk Johnson 8 fugla í gær en hann deildi besta hring dagsins með þeim Scottie Scheffler og Collin Morikawa sem léku einnig á 5 höggum undir pari.

Takist Johnson að vinna í kvöld verður það annar risatitill kappans en sá fyrri kom árið 2016 á Opna bandaríska mótinu.

Scottie Scheffler og Cameron Champ deila öðru sætinu á 8 höggum undir pari, höggi á eftir Johnson. Þrír kylfingar deila svo fjórða sætinu, þar á meðal Brooks Koepka sem sigraði á þessu móti árin 2018 og 2019.

Haotong Li, sem leiddi eftir tvo daga, lék þriðja hringinn á 3 höggum yfir pari og féll niður í 13. sæti á 5 höggum undir pari. Hann á þó enn raunhæfan möguleika á því að vinna enda einungis fjórum höggum á eftir Johnson.

Lokahringur mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna.

Staða efstu manna:

1. Dustin Johnson, -9
2. Scottie Scheffler, -8
2. Cameron Champ, -8
4. Collin Morikawa, -7
4. Paul Casey, -7
4. Brooks Koepka, -7
7. Bryson DeChambeau, -6
7. Tony Finau, -6
7. Justin Rose, -6
7. Jason Day, -6
7. Daniel Berger, -6
7. Tommy Fleetwood, -6