Fréttir

Egill Ragnar: „Lenti um 3 metra fyrir framan pinnann og rúllaði svo rólega ofan í“
Egill Ragnar Gunnarsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 18. janúar 2021 kl. 20:37

Egill Ragnar: „Lenti um 3 metra fyrir framan pinnann og rúllaði svo rólega ofan í“

Egill Ragnar Gunnarsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar hefur undanfarin ár leikið með Georgia State Háskólanum. Hann er á sínu síðasta ári og er á fullu að undirbúa sig fyrir vorönnina.

Í gær var Egill að leika í umspili (e. qualifying) um sæti í fyrsta móti vorsins og gerði hann sér lítið fyrir og fór holu í höggi á hringnum í gær. Í samtali við Kylfing sagði Egill að þetta hafi verið umspil fyrir fyrsta mót tímabilsins.

„Við vorum að spila 'qulifying' fyrir mót vorsins á The Fields vellinum í Georgíu. Þetta var hola 4 og var hún um 165 metra löng í smá mótvindi. Ég sló létt 6 járn til að halda boltanum undir vindinum. Ég sló lágt 'draw' sem lenti um 3 metra fyrir framan pinnann og rúllaði svo rólega ofan í.“

Á Instagram-reikningi golfliðsins birtist myndband af því þegar Egill náði í kúluna ofan í holuna en þjálfarinn í liðinu var að spila með Agli.

„Ég var að spila með þjálfaranum mínum sem tók upp myndbandið.“

Egill lék vel restina af hringnum og kom hann í hús á 70 höggum, eða höggi undir pari.