Fréttir

Einn efnilegasti kylfingur heims myrtur á golfvellinum
Celia Barquin Arozamena fagnaði hér á Evrópumóti áhugamanna í júlí.
Þriðjudagur 18. september 2018 kl. 11:09

Einn efnilegasti kylfingur heims myrtur á golfvellinum

Hin spænska Celia Barquin Arozamena fannst látin á golfvelli í Iowa fylki Bandaríkjanna snemma á mánudaginn.

Arozamena, sem var einn efnilegasti kylfingur heims, hafði þá ætlað að spila golf á Coldwater Golf Links en kylfingar á vellinum tóku eftir því að golfpokinn hennar var á vellinum og ekkert hafði spurst til Arozamena. Seinna fannst hún svo látin, skammt frá pokanum.

Arozamena varð Evrópumeistari áhugamanna í júlí síðastliðnum og var talin mikið efni en hún var einungis 22 ára. Þá lék hún fyrir Iowa State háskólann og hafði gert góða hluti með skólanum. Hún var búin að tryggja sér þátttökurétt á Opna breska mótinu á næsta ári og fékk sömuleiðis að spila á Opna bandaríska mótinu í sumar.

Búið er að ákæra hinn 22 ára gamla Collin Daniel Richards fyrir morðið. Lögreglan segir ljóst að um morð hafi verið að ræða.

Ísak Jasonarson
[email protected]