Fréttir

Enn lendir Lexi Thompson í vandræðum með reglurnar
Lexi Thompson
Sunnudagur 19. ágúst 2018 kl. 12:49

Enn lendir Lexi Thompson í vandræðum með reglurnar

Lexi Thompson er nýkomin til baka eftir frí þar sem hún sagðist hafa þurft tíma til að jafna sig andlega á öllu sem hafði skeð á síðasta ári. Fyrir þá sem ekki vita þá lenti Thompson í því að fá dæmd á sig fjögur vítishögg fyrir að brjóta reglu á fyrsta risamóti ársins. Mótið endaði þannig að Thompson tapaði í bráðbana á móti So Yeon Ryu.

Indy Women in Tech meistaramótið sem er í fullum gangi núna um helgina á LPGA mótaröðinni er fyrsta mót Thompson í nokkrar vikur og sýndi hún í gær að hún hefur engu gleymt. Eftir níu holur var hún á sex höggum undir pari.

Á 10. brautinni lenti hún í því að slá teighöggið sitt yfir á aðra braut og hélt hún að hún mætti lyfta bolta sínum, hreinsa hann og leggja hann aftur á sama stað. Kylfingum hafði aftur á móti verið tilkynnt að þetta mætti aðeins á þeirra braut sem þeir væru að leika. Thompson fékk því eitt vítishögg og endaði hringinn á 64 höggum eða átta höggum undir pari í stað níu höggum undir pari. Fyrir lokahringinn er hún fimm höggum á eftir efstu konu í stað fjögurra hefði hún ekki fengið þetta vítishögg á sig. Það ætlar því ekki að ganga vel hjá Thompson að hrista af sér fortíð.

Lokahringur mótsins fer fram í dag og má fylgjast með skori keppenda hérna.