Fréttir

Erfiður dagur hjá Guðmundi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 15. febrúar 2020 kl. 12:12

Erfiður dagur hjá Guðmundi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sér ekki á strik á þriðja hring Dimension Data Pro/Am mótsins en það er hluti af Áskorendamótaröðinni. Guðmundur lék hringinn í dag á átta höggum yfir pari og því ljóst að hann mun ekki komast í gegnum niðurskurðinn.

Fyrir daginn var Guðmundur á parinu og þurfti að eiga góðan hring til þess að eiga möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn. Það tókst hins vegar ekki því Guðmundur kom í hús á 81 höggi. Á fyrri 9 holunum fékk Guðmundur tvo fugla, fjóra skolla og restin pör og lék hann þær því á tveimur höggum yfir pari. Á seinni 9 holunum fékk Guðmundur svo tvo fugla, einn skolla, tvo tvöfalda skolla og einn þrefaldan skolla.

Eins og staðan er núna er Guðmundur jafn í 166. sæti á samtals 8 höggum yfir pari en niðurskurðurinn miðast við þá sem eru á sex höggum undir pari eða betur. Efsti maður, Santiago Tarrio Ben er á samtals 18 höggum undir pari.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.