Fréttir

Evrópumótaröð karla: Catlin sigurvegari í annað sinn í september
John Catlin.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 27. september 2020 kl. 21:38

Evrópumótaröð karla: Catlin sigurvegari í annað sinn í september

Það má með sanni segja að september hafi reynst Bandaríkjamanninum John Catlin góður en í dag tryggði hann sér annan sigur sinn á Evrópumótaröð karla og er þetta annar sigur hans í mánuðinum.

Lokadagur Dubai Duty Free Irish Open mótsins var leikinn í dag og var það Englendingurinn Aaron Rai sem var í forystu fyrir daginn. Á meðan Rai lék á pari vallar átti Catlin næstbesta hring mótsins og kom sér tveimur höggum á undan Rai.

Catlin lék á 64 höggum í dag eða sjö höggum undir pari, þar sem hann fékk meðal annars þrjá fugla á síðustu fjórum holunum. Hann endaði mótið á 10 höggum undir pari, tveimur höggum á undan Rai.

Fyrr í mánuðinum fagnaði Catlin sigri á Andalucia Masters mótinu og var það fyrsti sigur hans á mótaröðinni.