Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Evrópumótaröð karla: Danski nýliðinn kominn með tvo sigra
Rasmus Højgaard.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 31. ágúst 2020 kl. 18:07

Evrópumótaröð karla: Danski nýliðinn kominn með tvo sigra

Það var danski táningurinn Rasmus Højgaard sem fagnaði sigri á ISPS Handa UK meistaramótinu sem kláraðist í gær en það var hluti af Evrópumótaröð karla. Mikil spenna var undir lokin og þurfti að grípa til bráðabana en svo fór að lokum að Højgaard hafði betur á annari holu bráðabanans.

Højgaard lék frábært golf á lokadeginum og kom í hús á 65 höggum eða sjö höggum undir pari. Hann fékk sex fugla, einn örn, einn skolla og restina pör. Síðustu fimm holurnar lék hann á fjórum höggum undir pari en örninn kom á 17. holunni eftir frábært inn á högg. Mótið endaði hann á 14 höggum undir pari.

Justin Walters lék einnig á samtals 14 höggum undir pari og þurfti því að grópa til bráðabana. 18. holan var þá leikin og fengu þeir báðir par í fyrstu tilraun. Í annari tilraun fékk Højgaard par á meðan Walters fékk skolla.

Þetta er annar sigur Højgaard á tímabilinu á Evrópumótaröðinni en hann vann sér einn keppnisrétt með góðum árangri í úrtökumóti sem fram fór síðasta haust.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.