Fréttir

Evrópumótaröð karla: Højgaard vann eftir bráðabana
Rasmus Højgaard
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 8. desember 2019 kl. 13:00

Evrópumótaröð karla: Højgaard vann eftir bráðabana

Það var mikil spenna á lokadegi Afrasia Bank Mauritius Open mótsins. Svo fór að lokum að Rasmus Højgaard stóð uppi sem sigurvegari eftir bráðabana við Antoine Rozner og Renato Paratore.

Fyrir lokadaginn voru þrír kylfingar jafnir á 16 höggum undir pari. Það var snemma ljóst að margir kylfingar yrðu í baráttunni um sigurinn. Með fugli á lokaholunni kom Paratore í hús á 19 höggum undir pari og gerði út um vonir margra. Þeir Højgaard, Rozner og Thomas Detry voru þá á 18. teig. Rozner og Detry fengu báðir par en þar sem Detry var á 18 höggum undir pari fyrir holuna komst hann ekki í bráðabanann á meðan Rozner var á 19 höggum undir par. Højgaard fékk aftur á móti fugl og endaði einnig á 19 höggum undir pari.

Í bráðabananum var 18. holan fyrst leikin og fengu Højgaard og Rozner fugl á meðan Paratore fékk par og var hann því úr leik. 18. holan var þá leikin aftur og aftur fengu Højgaard og Rozner fugl. Í þriðja skiptið sem 18. holan var leikin fékk Højgaard svo örn á meðan Rozner fékk fugl og stóð Højgaard því uppi sem sigurvegari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.