Fréttir

Evrópumótaröð karla: Luke List efstur í Skotlandi
Luke List
Fimmtudagur 12. júlí 2018 kl. 19:00

Evrópumótaröð karla: Luke List efstur í Skotlandi

Opna skoska mótið á Evrópumótaröðinni hófst í dag og er það Bandaríkjamaðurinn Luke List sem er í forystu eftir fyrsta hring. List lék á sjö höggum undir pari og er einu höggi á undan fimm kylfingum.

Skor voru almennt mjög góð í dag en 96 kylfingar léku á undir pari í dag, þar af voru nokkrir kylfingar sem léku fyrri níu holurnar á 29 höggum.

Á hringnum í dag fékk List níu fugla, tvo skolla og restina pör. Hann lék fyrri níu holurnar á 31 höggi og þær síðari á 32 höggum og kom því í hús á 63 höggum.

Jafnir í öðru sæti á sex höggum undir pari eru þeir Robert Rock, Rickie Fowler, Scott Fernandez, Jens Dantorp og Lee Westwood.

Efsti maður stigalista Evrópumótaraðarinnar, Patrick Reed, er á meðal keppenda. Hann er jafn í sjöunda sæti á fimm höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.