Fréttir

Evrópumótaröð karla: Meronk með nauma forystu fyrir lokahringinn
Adrian Meronk.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 28. nóvember 2020 kl. 18:47

Evrópumótaröð karla: Meronk með nauma forystu fyrir lokahringinn

Mikil spenna er fyrir lokahringinn á Alfred Dunhill Championship mótinu en Pólverjinn Adrian Meronk leiðir með einu höggi. Höggi á eftir honum er Suður-Afríkubúinn og heimamaðurinn Jayden Schaper.

Meronk byrjaði daginn með þriggja högga forystu á Joachim B. Hansen. Sú forystu var þó horfin eftir níu holur og var þá Hansen með eins höggs forystu. Á meðan Hansen gaf mikið eftir á síðari níu holunum náði Meronk að snúa gengi sínu við og lék síðari níu holurnar á þremur höggum undir pari. Hann lék hringinn í dag á 71 höggi, eða höggi undir pari, og er eftir daginn á samtals 14 höggum undir pari.

Schaper var fimm höggum á eftir Meronk fyrir daginn í dag en hringur upp á 67 högg, eða fjögur högg undir pari, þýðir að hann er samtals á 13 höggum undir pari og því einu höggi á eftir Meronk.

Hansen, sem var í forystu um tíma í dag, lék síðustu 11 holurnar á fjórum höggum yfir pari. Hann er því samtals á níu höggum undir pari og jafn í sjötta sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.