Fréttir

Evrópumótaröð karla: Oosthuizen bar af á fyrst hring Nedbank Golf Challenge mótsins
Louis Oosthuizen.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 14. nóvember 2019 kl. 17:20

Evrópumótaröð karla: Oosthuizen bar af á fyrst hring Nedbank Golf Challenge mótsins

Næst síðasta mót tímabilsins á Evrópumótaröð karla, Nedbank Golf Challenge mótið, hófst í dag í Suður-Afríku á Gary Player vellinum. Heimamaðurinn Louis Oosthuizen bar af á fyrsta degi og er hann með þriggja högga forystu eftir daginn.

Oosthuizen gerði engin mistök í dag. Hann hóf leik á fyrsta teig og var kominn fjögur högg undir par eftir sex holur og var á því skori eftir níu holur. Hann fékk svo fimm fugla á næstu átta holum og endaði svo daginn á pari. Hringinn lék hann því á níu höggum undir pari, eða 63 höggum, þar sem hann fékk níu fugla og restina pör.

Thomas Detry er einn í öðru sæti á sex höggum undir pari. Hann fékk sjö fugla á hringnum í dag en einn skolla á móti. Guido Migliozzi er svo einn í þriðja sæti á fimm höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.