Fréttir

Evrópumótaröð karla: Ormsby byrjaði best í Svíþjóð
Wade Ormsby.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 22. ágúst 2019 kl. 15:40

Evrópumótaröð karla: Ormsby byrjaði best í Svíþjóð

Fyrsti dagur Scandinavian Invitation mótsins fór fram í dag en mótið er hluti af Evrópumótaröð karla. Leikið er í Svíþjóð á Hills Golf & Sport vellinum sem staðsettur er í Gautaborg. Eftir fyrsta hringinn er það Wade Ormsby sem er í forystu eftir frábæran fyrsta hring upp á 62 högg.

Ormsby tapaði ekki höggi á hringnum í dag. Hann hóf leik á 10. holu og lék fyrstu níu holurnar á 28 höggum, eða sex höggum undir pari. Hann fékk meðal annars örn á 14. holunni sem er rúmlega 410 metra löng par 4 hola. Á síðari níu holunum fékk Ormsby tvo fugla til viðbótar og kom sér því á átta högg undir par.

Frakkinn Alexander Levy er einn í öðru sæti á sjö höggum undir pari. Hann fékk átta fugla á hringnum sínum, einn skolla og restina pör. Matthew Fitzpatrick er einn í þriðja sæti á sex höggum undir pari.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.