Fréttir

Evrópumótaröð karla: Þessir koma til greina í vali á kylfingi mánaðarins
Matt Wallace.
Mánudagur 8. október 2018 kl. 15:39

Evrópumótaröð karla: Þessir koma til greina í vali á kylfingi mánaðarins

Evrópumótaröð karla hefur nú gefið út hvaða fjórir kylfingar koma til greina í vali á kylfingi september mánaðar. Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Matt Fitzpatrick, Tom Lewis, Matt Wallace og Ashun Wu.

Englendingurinn Fitzpatrick varð sá yngsti frá sínu landi til að vinna fimm sigra á Evrópumótaröðinni þegar hann varði titil sinn á Omega European Masters mótinu. Þá varð hann einnig í 7. sæti á Made in Denmark mótinu og kom sér upp í 13. sæti stigalistans.

Samlandi hans, Lewis, sigraði á Portugal Masters mótinu en stuttu áður hafði hann unnið Bridgestone Challenge mótið á Áskorendamótaröðinni.

Þriðji Englendingurinn sem kemur til greina í valinu er Wallace sem tryggði sér þriðja titilinn á tímabilinu með sigri á Made in Denmark mótinu. Wallace fagnaði sigri með stæl því hann fékk fimm fugla á síðustu 6 holum mótsins.

Wu varð í mánuðinum sigursælasti kínverski kylfingurinn frá upphafi á mótaröðinni þegar hann sigraði á KLM Open mótinu. Þá varð hann einnig í 6. sæti á Omega European Masters mótinu og kom sér upp í 43. sæti á stigalistanum.

Hér er hægt að kjósa um kylfing september mánaðar.


Matt Fitzpatrick.

Ísak Jasonarson
[email protected]